Jón Arnar Guðbrandsson tók þátt í að stofna uppskrifta- og matarvefinn Einn, tveir og elda. Að sögn Jóns skipta nokkrir hlutir miklu máli við gerð svona uppskriftavefs og eitt það mikilvægasta er að ná fólki í áskrift, gera ráð fyrir því að það taki ákveðið langan tíma að ná fólki inn, vera með stóran gagnagrunn, vera með kokk/næringarfræðing við gerð réttanna því það skiptir öllu máli að maturinn sé góður og vel útfærður. Setja þarf allt útlit inn í aðlaðandi þema. Samstarf við aðra matarvefi og auglýsa þar. Ásamt því þarf heimasíðan að vera óaðfinnanleg og vel útfærð. Nánar má lesa um viðtalið í viðauka 3.
Viðtal var tekið við Sigríði Dagný Sigurbjörnsdóttur, framkvæmdarstjóra Birtíngs útgáfufélags sem meðal annars gefur út blaðið Gestgjafann til að kanna möguleikann á samvinnu og að fá uppskriftir fyrir vefinn.
Eftir samtal við Sigríði varð ljóst að verkefnið á ekki samleið með Birtíngi. Birtíngur hefur verið að selja eina uppskrift á 45.000 kr sem er of dýrt þar sem það þarf að útvega að lágmarki 150 uppskriftir. Mögulegt áhyggjuefni er einnig að Gestgjafinn, sem er nokkuð vinsæll á meðal Íslendinga, býr yfir 500 óflokkuðum uppskriftum og hefur áhuga á að vera með sambærilegan vef í framtíðinni. Nánar má lesa um viðtalið í viðauka 4.
Til að auka skilning og þekkingu á þeim tíma og kostnaði sem tekur að útbúa uppskriftir var haft samband við reynslumikinn matreiðslukennara. Að mati viðmælanda gæti einn starfsmaður gert 1,5 uppskriftir að meðaltali á dag. Kostnaðarverð er áætlað 30.000 kr. á uppskrift með möguleika á magnafslætti, til dæmis væri líklegt að fá fimm uppskriftir á 100.000 kr. (Nína María Gústafsdóttir, munnleg heimild, 24.2.2020). Þetta viðmið verður notað í kostnaðaráætlun til að afla uppskriftargrunns. Nánar má lesa um viðtalið í
viðauka 5.
Til að finna út mögulegan viðskiptamannahóp var þróun neyslu Íslendinga skoðuð á sviði rafrænnar þjónustu. Sú þjónusta er að aukast í miklu mæli og var horft sérstaklega til Spotify, Netflix og Storytel. Streymisveitur eru að verða algengari og fólk er tilbúið að borga fyrir þá þjónustu. Fólk er tilbúið til að nýta sér streymisveitur því þær bæta einhverju inn í lífið og geta auðveldað það.
Streymisveitur eins og Spotify hafa sýnt ótrúlegan vöxt á undanförnum árum. Hér á landi hefur áskrifendum sem greiða fyrir á Spotify fjölgað úr 3.906 frá í júlí 2013 í 65.640 í júlí 2017 (Arnar Jónsson, 2018). Árið 2019 fjölgaði áskrifendum að Spotify um 50% (Mannlíf, 2019). Líklegt er að fjöldi áskrifenda sé að nálgast 30% af íbúafjölda Íslands.
Það sama á við um streymisveituna Netflix en 72% af Íslendingum eru áskrifendur að Netflix eða hafa aðgang að Netflix (Kjarninn, 2019). Yfir 90% af einstaklingum á aldrinum 18 – 29 hafa aðgang að Netflix.
Storytel er streymisveita fyrir bækur og opnaði fyrir íslenskar bækur árið 2018. Vöxturinn er mikill og greinilegt að Íslendingar taka þessari þjónustu vel og hefur tilkoma þess spornað við samdrætti í íslenskri bókaútgáfu (Viðskiptablaðið, 2019). Áhugi á þessari þjónustu hefur farið stigvaxandi jafnt og þétt á sama tíma og aukning er í að fólk sé tilbúið að borga fyrir hana.
Í ritgerð Arnars Jónssonar „Falla nú öll vötn til streymisfjarðar“ frá febrúar 2018, sem fjallar um neyslu og greiðsluvilja Íslendinga varðandi tónlist, er vísað í 2017 skýrslu frá Nielsen sem bendir á vaxandi vinsældir lagalista. Að neytendur búi sér til lagalista eða leita uppi vinsæla lista og þeir nýti sér að stórum hluta streymi og útvarp. Neytendur eru að uppgötva tónlist í gegnum vini/ættingja, samfélagsmiðla, streymisveitur og útvarp, sem vegur þungt. Tæknin sé að breyta hlustunarvenjum og samfélagsmiðlar spila mikilvægt hlutverk í sambandi neytenda og tónlistarmanna. Hlustendur nota gjarnan samfélagsmiðla til að fylgjast með og hlusta á tónlistarmenn sem þeim líkar við, frétta strax af nýjum plötum og tónleikum og fá innsýn inn í þeirra líf.
Ætla má að hægt sé að breyta hegðun Íslendinga í kringum mataruppskriftir með samskonar hætti og neysluhegðun hefur breyst varðandi tónlist, kvikmyndir, sjónvarpsþætti og bækur. Til þess þarf góða streymisveitu fyrir mataruppskriftir sem uppfyllir þarfir nútímaeinstaklinga og flóknar fjölskyldugerðir. Ef vel tekst til að gera góða veitu sem uppfyllir þessar þarfir er greiðsluviljinn til staðar og mun jafnvel þykja sjálfsagður þegar fram líða stundir eins og reyndin er með Spotify, Netflix og Storytel.
Þegar niðurstöður tilgátna og prófanna eru skoðaðar er ljóst að vilji er fyrir því að fá uppskriftir sem henta margbreytileika heimilisins og því er markaðsóvissan lítil en auðvitað skiptir markaðssetning alltaf miklu máli þegar kemur að því að hrinda slíku verkefni í framkvæmd. Þó svo ekki sé hægt að leysa allan vanda fyrir alla þá er þetta eitthvað sem hægt er að getað auðvelda fyrir viðskiptavinum. Möguleikinn á að draga úr þeim hausverk sem fylgir því að finna uppskriftir sem henta margbreytileika heimilisins er til staðar.
Vefsíðu var stillt upp til að lágmarka tæknilega óvissu í samvinnu við vefforritara þar sem að hægt var að gera prófanir á að setja inn uppskriftir út frá sérþörfum og vali hvers og eins.
Rafræna vefkönnunin gaf í skyn er viðskiptaóvissan takmörkuð en tæplega 350 þátttakenda svöruðu kostnaðarspurningu og þar kom í ljós að réttmæt verðlagning út frá viðskiptavininum er 990 kr. fyrir mánaðaráskrift. Frekar verður fjallað um hve arðbær varan kann að vera út frá þessu mánaðargjaldi í kafla viðskiptalíkansins.
Varan sem verður boðið upp á er góð áskriftarvefsíða þar sem einstaklingar geta valið þann fjölda sem uppskriftin á að vera fyrir, valið sérþarfir, eins og ofnæmi, óþol, hráefni eða aðrar óskir séu þær eru til staðar og vefurinn kemur með tillögur að uppskriftum út frá þessum óskum. Tilbúin hefði vefsíðan þann eiginleika, sem streymisveiturnar hafa, að lesa í hegðun viðskiptavinarins og koma með tillögur að uppskriftum sem virðist henta hans þörfum. Þegar einstaklingur hefur notað síðuna í ákveðinn tíma þá hafa safnast upplýsingar um þarfir hans og hegðun og þá koma tillögur að uppskriftum upp ásamt því að hann getur að sjálfsögðu valið sjálfur líka. Þannig verður hægt að biðja um uppskriftir fyrir ákveðinn fjölda daga þar sem tekið er tillit til þess sem merkt hefur verið við og þann „smekk“ sem viðskiptavinurinn hefur sýnt með þeim uppskriftum sem hann hefur notað hingað til.