Markaðsmál

1.1     Markaðsskilaboð

Móta þarf skilaboðin fagmannlega og skipulagt frá upphafi. Í upphafi skal endinn skoða en of algengt er á íslenskum auglýsingamarkaði að farið sé af stað með hálfmynduð plön. Byrja þarf mjög tímalega að tímasetja allar útsendingar á skilaboðum sem og auglýsingum. 

 

 

Notast verður við kynningarmyndbönd í upphafi:

  • Myndböndin eru öll tekin upp á ódýran máta en á völdum stað.
  •  Aukamyndband verður tekið upp þar sem sýnt er bakvið tjöldin frá öllum hliðum og verða það fyrstu skilaboðin sem send verða út. 
  • Ljósmyndari mun fylgja öllu ferlinu eftir frá a-ö og á samfélagsmiðla verður myndunum póstað sem upphitunarmyndir eða svokallaðar „teaserar“ sem gerir fólk forvitið.  

1.2     Markaðssetning

Myndböndin verða keyrð í Facebook auglýsingaformi til viðbótar við viðburðinn og „bústuð“ til viðeigandi aldurshópa. Á Instagram keyrum við myndböndin einnig sem auglýsingar en styttri útgáfur sem og útbúum Instagram-story myndir til auglýsinga og sem færslur. Búnir verða til einfaldir vefborðar. Skilaboðum verður skipt út reglulega og miðuð að hverjum markhóp fyrir sig. 

Útbúið verður grunnplan fyrir fyrsta árið með grófum hugmyndum um hverjar áherslur verða hverju sinni. Svo verður mánaðarlega útbúið ígrundað birtingarplan þar sem farið er vel yfir auglýsingar á samfélagsmiðlum, viðburðir eða dagblaðaauglýsingar. Öll skilaboð eiga að tala saman og senda frá sér rétt skilaboð. Myndin hér að neðan gefur ágætis mynd um hvað eigi að birta hvar á samfélagsmiðlum.

Mynd 4: Samfélagsmiðlar útskýrðir. Hvað og hvar.

Rannsóknir sýna að bestu raunina gefur að vera á sem flestum miðlum með aðaláherslu á vefsíður, innlendar og erlendar ásamt ígrunduðu „PR“ þar sem reynt verður að koma vefsíðunni inn í sem flesta spjallþætti sem skemmtileg nýjung í íslensku flóruna. Fréttatilkynningar verða sendar út ásamt myndum á alla helstu miðla landsins til að ná sem víðast. Þá er nokkuð ódýr leið að notast við skjáauglýsingar, útvarpsauglýsingar og jafnvel óhefðbundnar auglýsingar í prentmiðlum – þetta verður gert til að styðja við vefherferðir. 

1.3     Markhópar

 

Markhópurinn fyrir vefsíðuna og smáforritið (e. app) er nokkuð breiður þar sem viðmiðið er að allir geti fundið uppskrift við sitt hæfi. Horft er á nútímafjölskylduna sem vill finna leiðir til að einfalda lífið

1.3.1     24-39 ára; 

Fólk komið af yngsta skeiðinu og búið að eignast sitt fyrsta barn. Fólk með yngri börn og eru að finna jafnvægið í lífinu á milli vinnu, fjölskyldu, tómstunda og öllu hinu sem þarf að sinna í daglega lífinu. Fólk sem er alltaf með símann við höndina og verður meðfram vefsíðunni útbúið smáforrit til að flýta fyrir valinu ásamt því að geta valið uppskriftir hvar og hvenær sem er í símanum. Þetta er upptekna fólkið.

1.3.2     40-65 ára; 

Fólk með unglinga eða uppkomin börn sem ýmist geta hjálpað til við eldamennsku. Þessi markhópur er einnig virkur á samfélagsmiðlum en les þó líka prentmiðla og horfir á línulegt sjónvarp. Fólk sem er búið með mesta baslið. Það er búið að kaupa sér íbúð og búið að fastmóta sér stefnu í lífinu. Börnin eru komin á miðstig í grunnskóla eða jafnvel lengra og lífið er einfaldara.  

1.3.3     66-99 ára; 

Fólk sem er ekki mjög virkt á samfélagsmiðlum en skoðar Facebook, það les þó blöðin og fylgist með trendum. Eldra fólk sem er hresst og hefur gaman að því að fara út, en líka að elda saman heima. vill hafa það gott, njóta lífsins og á þessum tíma vaknar fólk aftur upp til lífsins – eftir strit síðustu ára. Elsti hópurinn hefur upplifað tímanna tvenna og eftir sparnað síðustu áratuga á það aur á bankareikningunum og vill gjarnan nýta það til góðra samverustunda. 

1.4     Tengsl við viðskiptavini

Ferlið að sækja viðskiptivini getur tekið tíma og þess vegna þarf að hafa vel útfærða markaðssetningu og auglýsa á réttum stöðum. Það skiptir miklu máli að vera virkur á samfélagsmiðlum og fylgja viðskiptavinunum eftir með áhugaverðum póstum og upplýsingum. Uppskriftirnar þurfa að vera góðar og mikilvægt er að fyrsta upplifun viðskiptavinar sé jákvæð því hún fær hann til þess að vilja kaupa áskrift. Einnig skiptir jákvæð umfjöllun og orðspor miklu máli. Heimasíðan þarf að vera vel útfærð og einföld í vinnslu þar sem hún er andlit fyrirtækisins. Halda þarf í viðskiptavinina og til þess þarf að halda þeim ánægðum. Virk og lifandi samskipti við viðskiptavinina, hlusta á þá og gert það besta til að verða við óskum og þörfum þeirra. Tölvupóstfang verður uppgefið svo hægt sé að senda inn fyrirspurnir eða ábendingar hvenær sem er og einnig símanúmer svo hægt sé að ná til fyrirtækisins á almennum skrifstofutíma.