Í upphafi settist hópurinn niður og skoðaði hvaða vandamál væru í hinu daglega lífi sem hugsanlega mætti finna lausn á. Eftir fjörugt hugarflug voru fimm vandamál sett á blað, en fjölmörgum var strax sópað út af borðinu. Það voru hugmyndirnar lífið og skipulagið, pósturinn, fjarstýringin, hreyfing og heilsa og hvað á að vera í matinn. Hvað á að vera í matinn stóð upp úr og vann hópurinn áfram við að skilgreina og þrengja þennan vanda.
Áður en tekin var lokaákvörðun um verðugt vandamál voru um 50 manns í nærumhverfi hópmeðlima spurðir varðandi hverjar helstu daglegu áskoranirnar væru. Meirihluti nefndi vandamál tengdum matmálstíma heimilanna.
Til að afmarka vandamálið enn betur spurðum við 33 einstaklinga hvað þeim þætti þeirra helsta vandamál tengt matmálstíma vera. Einnig var fólk spurt hvort það nýtti sér heimsendingarþjónustu við matarinnkaup, uppskriftir og/eða uppskriftarvef. Í ljós kom að mesta áskorunin fyrir fólk var að láta sér detta eitthvað í hug til að hafa í matinn en einnig höfðu margir áhyggjur af matarsóun og þá oftast vegna of mikilla innkaupa, eða fundu fyrir tímaskorti. Niðurstöður gáfu þó til kynna að helsta vandamálið væri ekki endilega að þurfa að fara út í búð heldur tengdist rót vandans því að vita hvað skal elda og að kaupa mat sem hentar fjölbreytileika heimilisins, ásamt því að kaupa rétt magn.
Til að skoða mögulegar lausnir og fá vísbendingar um viðskiptavininn var send út rafræn könnun með hnitmiðuðum spurningum. Hópmeðlimir birtu vefkönnunina á sínum samfélagsmiðlum og svöruðu 650 manns könnuninni. Tæp 65% þátttakenda sögðust eiga við vandamál að stríða tengd matmálstíma heimilisins. Um 53% þátttakenda sögðu sitt helsta vandamál vera að bjóða upp á mat sem henti fjölbreytileika heimilisins. Rúmlega helmingur þátttakenda kýs að fara út í búð að versla í matinn á móti tæpum 42% sem kýs að fá matinn sendan heim. Ljóst þótti eftir þessar niðurstöður að verslunarferðin sjálf væri ekki helsta vandamálið. Aðspurðir sögðust þátttakendur tilbúnir að greiða fyrir lausn í formi sérhæfðs uppskriftarvefs sem útvegaði innkaupalista og eldunartíma ásamt því að minnka matarsóun með því að nýta birgðir heimilisins en tæp 60% sögðust tilbúnir að greiða fyrir slíkan vef. Tæplega 350 þátttakendur svöruðu kostnaðarspurningu varðandi hve mikið þeir væru tilbúnir að borga fyrir slíka þjónustu og voru flestir tilbúnir að greiða 990 kr. fyrir mánaðaráskrift eða tæp 45%. Mikill meirihluti svarenda voru konur eða rúm 77% og voru 90% þátttakenda á aldrinum 26-59 ára. Verðugt vandamál var fundið! Lagt var af stað við að auðvelda fólki að elda mat sem hentar fjölbreytileika heimilisins.
Auglýst var eftir fjölskyldum sem vildu fá sendar þrjár uppskriftir fyrir vikuna. Markmiðið var að kanna hvort áhugi væri fyrir því að fá sérsniðnar uppskriftir, hvort þátttakendur myndu fara eftir uppskriftunum og hvort hægt væri með uppskriftunum að verða við óskum fjölbreytilegs heimilis. Einnig var kannað hvort þessir aðilar hefðu áhuga á viðbótarþjónustu og hvort þau væru tilbúin til að borga fyrir þjónustuna. Hópmeðlimir settu auglýsingu (sjá mynd nr. 1) á sína samfélagsmiðla og óskuðu eftir fjölskyldum sem vildu fá sendar þriggja daga sérsniðnar mataruppskriftir ásamt innkaupalista.
Mynd 1: Auglýsing birt á samfélagsmiðlum hópmeðlima – Uppskriftir fyrir margbreytileika heimilisins
Eftirspurnin var framar vonum en ætlunin var að fá 15 fjölskyldur til að taka þátt en 38 fjölskyldur fengu sendar fjórar uppskriftir sniðnar að fjölskyldustærð og sérþörfum svo sem ofnæmi, óþoli eða einhverju sérfæði. Við báðum fjölskyldurnar um að nýta sér þrjár þeirra á einni viku.
Á meðan hæfilegur tími leið á milli uppskriftasendingar og næstu könnunar vegna frumgerðar 1 var lagt í frumgerð 2. Hópmeðlimir settu póst (sjá mynd nr. 2) á samfélagsmiðla og buðu fólki að óska eftir uppskrift miðað við hráefni sem viðkomandi vildi nýta, og var til á heimilinu. Þannig gæti þátttakandi gefið upp kjúkling og kókósmjólk og fengið senda til sín uppskrift út frá þeim hráefnum.
Mynd 2: Auglýsing birt á samfélagsmiðlum hópmeðlima – Uppskriftir til að sporna við matarsóun.
Með frumgerð 2 var kannað hvort einstaklingar myndu senda póst og svo nýta sér uppskrift út frá uppgefnum hráefnum með það að leiðarljósi að sporna við matarsóun.
Sólahring eftir að auglýsingar voru birtar hafði borist mikið lof og hvatning en enginn hafði hug á að „vera með“. Með þá niðurstöðu í farteskinu var ákveðið að senda sama póst á afmarkaðri markhóp. Auglýsingin var birt á facebook-síðunum ,,Heimur batnandi fer“ og „matarsóun.is“. Tveimur sólahringum seinna var sömu sögu að segja, þó svo að margir segjast vilja sporna gegn matarsóun sjá viðauka 1 (Lausnir og viðskiptavinir kannaðir), þá virðast færri tilbúnir til að leggja eitthvað á sig.
Að viku lokinni voru sendir spurningarlistar til þeirra 38 fjölskyldna sem fengu uppskriftir. Spurningarnar ásamt niðurstöðum þeirra má sjá í viðauka 2. Tæp 53% þeirra sem fengu sendar uppskriftir svöruðu könnuninni og af þeim voru 85% sem nýttu sér tvær til fjórar uppskriftir, af þeim fjórum sem þeir fengu sendar. 85% þátttakenda sögðu alla fjölskyldumeðlima hafa verið ánægða, eða mjög ánægða með uppskriftirnar, 85% töldu mikilvægt að uppskriftirnar hefðu það leiðarljós að sporna við matarsóun, 65% sögðust hafa áhuga á að borga fyrir sambærilega áskrift. Einnig voru fjórar opnar spurningar og þegar að þær voru skoðaðar virtist rauði þráðurinn vera að viðskiptavinir vildu fjölbreyttar uppskriftir fyrir margbreytileika heimilisins. Í lok könnunarinnar var þátttakendum boðið upp á að skilja netfangið sitt eftir hefðu þeir áhuga á að fylgjast með framvindu verkefnisins og voru 70% svarenda sem höfðu áhuga á því. Þess ber þó að geta að ítrekun var ekki send á þátttakendur í von um að ná fram hærra svarhlutfalli.